Pizza pizza pizza!

Síðan ég var barn hefur það alltaf verið hefð að fjölskyldan komi saman á föstudagskvöldum og borði ljúffenga heimatilbúna pítsu og ég hélt í þá hefð þegar ég fór sjálf að búa. Það tekur meiri tíma og fyrirhöfn að búa til pítsu en að panta hana en það er bara eitthvað svo skemmtilegt að gera sjálfur, dóttir mín elskar að hjálpa til við pítsugerð og svo er það örugglega mikið ódýrara heldur en að kaupa hana tilbúna. Uppskriftin er mjög einföld!

500 gr. hveiti
1 bréf / 3 tsk. þurrger
3 dl volgt vatn
4 msk. matarolía
salt & smá sykur

Blandið öllu saman í stóra skál og hrærið með sleif eða setjið "hnoðara" á hrærivél ef þið eigið til svoleiðis :) Hnoðið það í höndum þar til það verður samfellt og flott. Setjið rakan klút yfir og geymið á hlýjum og loftlausum stað í 1-2 klst. Fletjið út á bökunarplötu klædda bökunarpappír og raðið álegginu á. Bakið á 200 gráðum í 20 mínútur. Til að fá crispy botn er hægt að hækka hitann örlítið og/eða setja pítsuna neðst í ofninn í staðin fyrir að baka hann í miðjunni. Vissuði líka að það er hægt að grilla pítsu? Mótið litlar hringlóttar pítsur úr deiginu og setjið á grillið, eftir örfáar mínútur ætti hliðin sem snýr niður að vera bökuð og orðin gullinbrún, snúið þá pítsunni við og setjið pítsusósu og álegg á. Gott er að setja ostinn neðst. Mér finnst alltaf svo gaman að prófa eitthvað nýtt og er alltaf að gera tilraunir og það er um að gera að vera hugmyndaríkur og nota það sem er til. Möguleikarnir eru endalausir - besta pítsa sem ég hef fengið hingað til var með kjúkling, jalapeno og salthnetum, ótrúlegt en satt. Mjög sniðugt að nota kjúkling ef maður á afganga - svo er líka hægt að kaupa tilbúna fulleldaða kjúklingastrimla í flestum matvörubúðum :) 



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Klassískar Íslenskar Pönnukökur og Súkkulaðilummur

Afrísk Jollof hrísgrjón með kjúklingi

Súkkulaði skúffukaka