Afrísk Jollof hrísgrjón með kjúklingi
Fyrir nokkru síðan fékk ég áhuga á afrískri matargerð. Kærastinn minn er frá Ghana og þegar við fórum að búa saman langaði mig að innleiða uppskriftir úr hans heimalandi inn í okkar vanalega matar-plan. Ég er líka svo heppin að eiga góða nágrannakonu frá Ghana sem er frábær kokkur og hún hefur komið mér svolítið af stað. Ghanamenn (og konur) elda mikið sterkan mat og nota mikið þennan piparávöxt. Þetta er afrískur Habanero pipar og ég hef fengið mína í Hagkaup í litlum pokum. Þeir eru rosalega sterkir og ég nota yfirleitt ekki meira en hálfan pipar þegar ég elda með þá. Ef þið eruð hrifin af sterkum mat er hægt að setja örlítið meira en ég mæli með að þið prófið ykkur hægt áfram. Þá má frysta svo þeir endist lengur. Fyrst þegar ég eldaði með þennan pipar lenti ég í því að fá svolítið sem kallast "Hot Pepper Hands", en það er svakaleg bruna- og sviðatilfinning í höndinni, sérstaklega á handabakinu, sem fer ekki þó hendurnar séu þvegnar með sápu heldur þarf að láta þær liggja í alkahóli. Þetta gerðist því ég skar piparinn í höndum, núna set ég hann alltaf í blandara. Passið ykkur á þessu! Ef þið leggið ekki í Habanero piparinn má sjálfsagt nota aðrar mildari tegundir af pipar, t.d. chili.
Í þessa uppskrift þarf:
4 kjúklingabringur
3 msk. matarolía
1 stór laukur
3 tsk. tómatmauk
1 kjúklingateningur
400 gr. basmati hrísgrjón
1 rauð paprika
1 gul paprika
2 hvítlauksgeirar
1 dós (hreinir) niðursoðnir tómatar
Þumall af fersku engiferi
1/2 Habanero pipar
Flestir niðursoðnir tómatar í dós eru með einhverju kryddi eða lauk en í þessa uppskrift viljum við fá hreina niðursoðna tómata, fínt að nota bara Euroshopper.
Þar sem ég ákvað í gærkvöldi að búa þetta til í hvelli átti ég hvorki til papriku né basmati hrísgrjón. Ég notaði í staðin frosið grænmeti og Uncle Bens whole grain brún hrísgrjón, þau drekka minni vökva í sig en basmati hrísgrjónin svo ef þið viljið notast við þau þarf að setja meira, eða um 450-500 gr. Hrísgrjónin eiga að drekka í sig allann vökva í pottinum. Þessi uppskrift er fyrir um 4 (svanga) manns en það er hægt að minnka hana eða geyma bara afgangana, það er ekkert verra.

Kryddið kjúklinginn með salti og pipar. Ég bætti líka við kjúklingakryddi og chili. Hitið 2 msk af olíu í stórum potti og steikið í cirka 5 mínútur þar til kjúklingurinn er orðinn gylltur allann hringinn (hann á ekki að vera fulleldaður). Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið til hliðar (geymið soðið, ekki hella því). Skerið lauk gróft og setjið aðra msk. af olíu í pottinn og steikið þar til hann er orðinn mjúkur. Setjið hvítlauk, niðursoðna tómata, engifer og pipar í matvinnsluvél. Setjið tómatmauk saman við laukinn í pottinum og steikið í 2 mínútur og setjið svo piparmixið saman við. Myljið kjúklingatenginginn út í og hrærið. Bætið út í pottinn 600 ml. af sjóðandi vatni ásamt kjúklingnum. Látið malla í 15 mínútur. Setjið hrísgrjónin í skál (eða sigti) og hreinsið með köldu vatni þar til vatnið er tært. Bætið hrísgrjónunum þá út í pottinn ásamt papriku og/eða frosnu grænmeti og lækkið hitann, setjið álpappír yfir pottinn og svo lok (svo engin gufa komist út) og látið malla í 20-30 mínútur eða þar til hrísgrjónin hafa dregið í sig allann vökva í pottinum. Takið af hellunni og blandið öllu vel saman.
Verði ykkur að góðu! :)
Ummæli
Skrifa ummæli