Súkkulaði skúffukaka

Þessi kaka var mjög vinsæl á mínu heimili þegar ég var yngri og var oft bökuð með sunnudagskaffinu eða við önnur tilfefni. Ég hef því borðað og bakað hana ótal mörgum sinnum og ég er á þeirri skoðun að hún sé bara einfaldlega sú besta. Uppskriftin er einföld. Þurrefnin eru mæld í bollum en ekki grömmum eða desilítrum, en ég hef bara notað miðlungsstóran bolla eða svolítið kúfað desilítramál. Það er súrmjólk í uppskriftinni sem veldur því að kakan verður dúnmjúk og nánast bráðnar í munninum. Ég hef oftast notað bara AB mjólk í staðin fyrir súrmjólk, það skiptir ekki öllu máli svo lengi sem það er "hreint", þ.e. ekki bragðbætt. Uppskriftin hljóðar svona: 

3 egg
2 bollar sykur
200 gr. smjörlíki (mjúkt)
4 bollar hveiti
1 tsk. lyftiduft
2 tsk. natron/matarsódi
3-4 msk. bökunar-kakó
1 tsk. vanilludropar
2 bollar súrmjólk/AB mjólk eða hreint jógúrt

Hitið ofninn í 180ºC. Egg og sykur þeytt vel saman, smjörlíkinu bætt við og svo er rest bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel. Setjið deigið á hreina, smurða ofnskúffu (það er líka gott að nota bara bökunarsprey) og bakið í miðjum ofni í 20 mínútur. Hægt er að nota prjóna-"trikkið" til að athuga hvort kakan sé orðin bökuð. Stingið hreinum prjóni í miðjuna á kökunni, ef prjónninn kemur þurr upp úr er kakan tilbúin. 

Það þarf alvöru krem á svona köku. Kremið inniheldur kaffi en get lofað því að þeir sem kunna ekki að meta kaffi munu samt elska þetta krem. Stundum hef ég verið kaffilaus og hef þá sett smá vanilludropa í staðinn. Það sem þú þarft er:

1 egg
100 gr. smjörlíki
tæpur pakki flórsykur
2-3 msk. bökunar-kakó
2-3 msk. kaffi

Ef þið eruð ekki mikið kaffi-fólk (eins og ég) en viljið samt geta lagað kaffi af og til fyrir gesti er um að gera að kaupa kaffið í krukkunum frá Nestlé, þá þarftu bara að sjóða vatn og hræra saman við - tilvalið þegar manni langar líka bara í einn bolla. Mér hefur líka verið sagt að það sé ekkert verra en annað kaffi. Einfalt og fljótlegt! Lagið kaffið og hrærið öllu vel saman. Látið kökuna kólna aðeins áður en kreminu er smurt á og voila! Það getur verið mjög gott að strá smá kókosmjöli ofan á kremið eða öðru kökuskrauti :) Verði ykkur að góðu!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Klassískar Íslenskar Pönnukökur og Súkkulaðilummur

Afrísk Jollof hrísgrjón með kjúklingi