Chilli-Lasagne og súpergóð og einföld skyrkaka!

Fyrir nokkrum vikum langaði mig í lasagne og langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég ákvað að breyta aðeins þessari klassísku lasagne uppskrift og gerði þetta ótrúlega góða chili-lasagne sem ég er búin að gera nokkrum sinnum síðan, alltaf jafn gott! Það sem þú þarft:

500 gr. nautahakk
lasagne plötur
300 gr. kotasæla
2-3 dl. Heinz traditional pasta sauce (eða önnur sem ykkur finnst góð)
3 msk. Heinz hot chilli sauce
1/2 dós nýrnabaunir
2-3 chili aldin
rifinn ostur
chili explosion krydd
smá cumin (eða taco krydd)
salt & pipar

Leggið lasagne plöturnar í vatn, gott er að nota bara ofnskúffu. Dreifið þeim svo þær liggi ekki ofan á hvorri annarri og leyfið að liggja í vatninu á meðan þið útbúið hakkið. Byrjið að steikja nautahakkið á pönnu. Skerið chilli aflangt og hreinsið fræin úr, skerið svo í litla bita. Bætið svo út a pönnuna. Hellið vökvanum af nýrnabaununum og bætið baununum út á pönnuna í lokin. Athugið að mat úr dós má ekki geyma í dósinni þegar hún hefur verið opnuð. Setjið því afganginn í fat með loki eða plastfilmu og geymið í ísskáp. Kryddið með chili explosion, cumin, salt og pipar. Um að gera að bæta fleiru við ef maður á einhver önnur spennandi krydd. Setjið sósurnar út á og blandið öllu vel saman og takið af hellunni. Raðið í eldfast mót, fyrst hakkið, svo lasagne plöturnar. Smyrjið plöturnar með kotasælu og setjið jafnvel smá rifinn ost inn á milli líka. Endurtakið og ljúkið með hakki efst og setjið svo rifinn ost yfir allt saman. Inn í ofn í um 20 mínútur. Mér finnst rétturinn mátulega sterkur, dóttir mín sem er ekki hrifin af sterkum mat klárar alltaf af disknum sínum og fær sér oftast ábót þegar þessi er í matinn. Nú ef þið eruð mikið fyrir sterkan mat er alltaf hægt að bæta við kryddi, chili og sósu :)

Mig langaði svo líka að deila þessari skyrköku uppskrift með ykkur. Hún er ótrúlega auðveld, fljótleg og góð. Tilvalin sem eftirréttur, í saumaklúbbinn eða bara með kaffinu :)


Það sem þú þarft:
1 pakki LU kanilkex
140 gr. smjör c.a. (meira/minna eftir þörfum)
1 stór dós KEA vanilluskyr
1 peli rjómi (1/4 l)
1 dós sýrður rjómi (18%)
Ber eða aðrir ávextir til að setja ofan á

Myljið kexið í botn á fati eða ofan á kökudisk. Ef þið notið kökudisk er gott að nota springform og taka botninn bara úr því. Bleytið vel í með bræddu smjöri, pressið vel niður í formið og aðeins upp til hliðanna. Þeytið rjómann. Setjið sýrða rjómann í skál og hrærið svolítið í. Blandið svo þeytta rjómanum saman við og að lokum skyrinu. Skyrkreminu er svo dreift ofan á kexbotninn og kælt í ísskáp í smástund. Skreytið með berjum eða öðrum ávöxtum að eigin vali. Skyrkakan geymist í nokkra daga í ísskáp.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Klassískar Íslenskar Pönnukökur og Súkkulaðilummur

Afrísk Jollof hrísgrjón með kjúklingi

Súkkulaði skúffukaka