Bollakökur með Hvítu Súkkulaði
Nú fer að líða að 6 ára afmæli dóttur minnar og mig er farið að klæja í puttana að byrja að baka! Eitt af því sem ég ætla að bjóða upp á eru þessar ótrúlega góðu bollakökur sem ég fann einhverntíman í Gestgjafanum. Ég hef gert þær nokkrum sinnum og þær eru alltaf fljótar að klárast enda sjúklega góðar! Þessi uppskrift gefur 10 - 12 kökur en það er auðvelt að stækka hana. Ég set hér með uppskrift af kremi en sé maður í tímaþröng er líka mjög gott að nota bara Betty Crocker Vanilla Icing tilbúið krem í dollu. Setjið kremið í rjómasprautupoka til að gera fallega áferð og skreytið svo að eigin vild með kökuskrauti og/eða nammi :)
120 gr. smjör (mjúkt)
180 gr. sykur
2 egg
240 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 og 1/2 dl hreint jógúrt (fínt að nota AB mjólk)
1 tsk. vanilludropar
100 gr. hvítt súkkulaði (saxað niður)
Hitið ofninn í 175 gráður. Hrærið smjör og sykur vel saman og bætið svo eggjunum út í og hrærið áfram. Blandið restinni af hráefnunum saman við. Setjið pappírsform í holur á múffubakka og skiptið deiginu á milli þeirra. Bakið í 20 mínútur.
Krem:
100 gr. hvítt súkkulaði
1/2 dl. rjómi
200 gr. rjómaostur
50 gr. flórsykur
Bræðið súkkulaði og rjóman saman við vægan hita. Hrærið rjómaost þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið súkkulaðinu saman við rjómaostinn og bætið flórsykrinum svo út í og kælið.
Ummæli
Skrifa ummæli