Heimatilbúnir kjúklinganaggar og sterk afrísk tómatsósa

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum! Það tekur svolítinn tíma að búa hann til en tíminn er alveg þess virði fyrir svo gómsætan endi. Sósan er mjög svipuð því sem ég nota í Jollof hrísgrjónaréttinn minn (sjá hér) og ég endurtek að fara varlega í piparinn og líka að nota hreina tómata í dós í sósuna (ekki með lauk eða kryddi). Venjulega er kjúklingnum blandað saman við sósuna og úr verður kjúklingakássa en það eru ekki allir jafnhrifnir af sterkri sósu og ég get lofað því að allir krakkar munu elska kjúklinganaggana!

Kjúklinganaggar
4 kjúklingabringur
2-3 hvítlauksrif
1 þumall ferskt engifer
1 dl hveiti
1 tsk. kjúklingakrydd
1 tsk. chiliduft
1/2 tsk. aromat
1 kjúklingateningur
salt & pipar
matarolía

Skerið kjúklingabringurnar í litla bita. Setjið smá olíu í pott og setjið kjúklinginn í pottinn. Rífið bæði engiferið og hvítlaukinn yfir og blandið vel saman. Setjið lok á pottinn og steikið í 3-5 mínútur, þar til kjúklingurinn er orðinn hvítur allann hringinn (hann á ekki að vera fulleldaður). Setjið sigti ofan á skál og hellið kjúklingnum yfir. Við viljum fá allt soðið í skálina undir. 
Setjið olíu í pott (um 1-2 dl) og kveikið undir á miðlungshita. Matarolía getur verið dýr og ég ætla að benda ykkur á það að það er í góðu lagi að nota hana aftur! Passið bara að láta hana kólna aðeins fyrst áður en þið hellið henni, sérstaklega ef þið viljið geyma hana í plastíláti því heit olía bræðir plast auðveldlega. 
Setjið hveiti og krydd saman í lokanlegt box og hrisstið þar til allt hefur blandast vel saman. Það er um að gera að leika sér með kryddin og bæta og breyta eftir smekk. (Ef þið eigið ekki box er líka hægt að nota glæran plastpoka, fylla af lofti og hrissta, þá er líka minna uppvask ;) ) Setjið kjúklingabitana, um 5-10 í einu ofan í boxið, lokið og hrisstið þar til bitarnir eru þaktir í kryddhjúpnum. 
Þegar olían er orðin heit ætti að krauma aðeins í henni og þegar biti er settur ofan í ætti að "bubbla" í kringum hann. Notið stóran gaffal eða skeið til að setja kjúklinginn varlega ofan í olíuna (athugið að nota ekki plast eða tréáhöld! það getur bráðnað og/eða brunnið). Setjið nokkra kjúklingabita í einu og veltið um í olíunni í um 3 mínútur eða þar til þeir eru orðnir fallega gylltir allann hringinn. Takið upp úr og setjið á eldhúspappír og endurtakið þar til allur kjúklingurinn er eldaður.  

Sterk afrísk tómatsósa:
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
um 1/2 þumall ferskt engifer
dós niðursoðnir tómatar (hreinir)
1/3 til hálfur habanero pipar
2 msk matarolía
kjúklingasoð
salt & pipar

Setjið lauk, hvítlauk, engifer, habanero pipar og niðursoðna tóamta í matvinnsluvél þar til úr verður mauk. Setjið olíu í stóran pott og hellið tómatmaukinu út í og mallið á miðlungshita með lokið á. Þegar þið hafið fengið soðið af kjúklingnum hellið því saman við sósuna og látið malla í um 1 klukkustund með lokið á, hrærið af og til. Þá má smakka sósuna til með salti & pipar.


Þennann er gott að bera fram með hrísgrjónum og fersku salati. Á myndinni eru líka steiktir plantain-bananar sem eru vinsælir meðal afríkuþjóða og í S-Ameríku, um að gera að prófa! Þeir fást í Hagkaup og mögulega öðrum matvöruverslunum :) 
Verði ykkur að góðu!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Klassískar Íslenskar Pönnukökur og Súkkulaðilummur

Afrísk Jollof hrísgrjón með kjúklingi

Súkkulaði skúffukaka